Τρίτη 30 Δεκεμβρίου 2014

Seiðandi Zakynthos 26. maí - 4. júní (9 nætur/10 dagar)

Eyjan Zakynthos eða Zante eins og hún er oft kölluð, tilheyrir þyrpingu af eyjum sem bera nafnið Sjöeyjar (Eftanisa) og eru í Jónahafinu á milli Grikklands og Ítalíu. Eyjan er náttúrufalleg og gróðursæl og var þess vegna kölluð ,,Il fiore di Levante'' sem þýðir ,,Blóm austursins'' af Feneyjamönnum. Hún var bitbein hinna ýmsu borgríka og þjóða í gegnum tíðina, en á síðari hluta 19. aldarinnar sameinaðist hún Grikklandi. Hún er þekktust fyrir stórkostlega strönd sem kölluð er Skipbrotið, en fólk kemur alls staðan að úr heiminum til að líta hana augum. Á ferð okkar til Zakynthos keyrum við um Pelópsskagann og stöldrum við í hinni frægu Ólympíu og á leiðinni til baka keyrum við um suðurhluta meginlandsins og lítum við hjá véfréttinni í Delfí. 



Ferðatilhögun:


26. maí - Koma og dvalið á hóteli í Aþenu eina nótt

27. maí - Eftir morgunmat verður haldið af stað og keyrt til bæjarins Nafplion á Pelópsskaganum með viðkomu hjá Kórinþuskurðinum. Nafplion er lítill bær við Argólisflóann sem hreykir sig af að hafa verið valinn sem fyrsta höfuðborg hins frjálsa Grikklands. Eftir stutta skoðunarferð í gamla feneyska bænum og hádegissnarl verður keyrt áfram yfir Pelópsskagann í gegnum borgirnar Tripoli og Megalopoli til Ólympíu. Nótt í Ólympíu.



28. maí - Eftir að hafa skoðað fornminjarnar í Ólympíu og tekið smá sprett á hinum upphaflega Ólympíuleikvangi, keyrum við í norður til Kyllini, þar sem við tökum eftirmiðdagsferju til Zakynthos. Siglingin tekur hálfan annan tíma og þegar við komum til eyjarinnar förum við á hótelið í Argassi þar sem við dveljum næstu 5 nætur. Argassi er lítill strandbær í nágrenni við höfuðstaðinn.


29. maí - Aðal aðdráttarafl eyjunnar varð til af manna völdum fyrir 33 árum síðan þegar skipið Panagiottis sem flutti ólöglegan farm af sígarettum, strandaði á eyðilegri strönd á norðvesturhluta hennar. Ströndin hét þá Agios Georgios, en hefur verið kölluð Skipbrotið ætíð síðan. Í dag förum við að skoða þessa strönd sem oft hefur verið kosin fegursta strönd í heimi og fáum okkur sundsprett ef veður leyfir.


30. maí - Frjáls dagur á ströndinni eða í bænum í Zakynthos sem býður upp á skemmtilegar verslanir, girnilega veitingastaði og fjöldan allan af kaffihúsm og börum.

31. maí - Í dag förum við í hringferð um eyjuna og byrjum á því að fara upp á útsýnishæðina fyrir ofan höfuðstaðinn, en komum svo við hjá vínbónda, þar sem við fáum að smakka vínin sem framleidd er á eyjunni. Við höldum áfram yfir á vesturhluta eyjunnar og keyrum í gegnum  hefðbundin sveitaþorp og fallega náttúru þar til við stoppum í þorpinu Anafonitria. Þar er klaustur frá 15. öld, en verndardýrlingur eyjunnar var þar ábóti í nokkur ár. Eftir stutta skoðunarferð um klaustrið fáum við frjálsan tíma til að rölta um þorpið. Næst förum við í heimsókn til ólífubónda þar sem við fáum að smakka ólífur, ólífuolíu, rúsínur, hunang og annað sem framleitt er þar á bæ. Þar á eftir keyrum við út á Anafonitria tangann þar sem við  höfum stórkostlegt útsýni yfir Skipbrotsströndina. Hádegismat borðum við í litla bænum Agios Nikolaos og þaðan förum við í stutta útsýnisferð á bát til bláu hellana sem eru þar í klettunum við ströndina. Við komum aftur á hótelið í eftirmiðdaginn.




1. júní - Eftir morgunmat kveðjum við Zakynthos og höldum yfir til meginlandsins. Frá Kyllini keyrum við í gegnum borgina Patras, yfir Kórinþuflóann til Nafpaktos, þar sem við stoppum í hádeginu. Þaðan höldum við til Delfí þar sem við dveljum eina nótt.



2. júní - Í Delfí skoðum við safnið sem hefur að geyma nokkra af mikilvægustu dýrgripum Grikklands og fornleifarnar þar sem véfréttin fræga hélt til í hofi Appollós og spáði fyrir gestum í margar aldir. Eftir hádegi höldum við til Aþenu og verðum komin þangað í eftirmiðdaginn. 2 nætur í Aþenu.



3. júní - Eftir morgunverð verður farið í skoðunarferð um Aþenu þar sem við sjáum háskólabyggingarnar, hof Seifs og Kallimarmaro, ólympíuleikvanginn þar sem fyrstu ólympíuleikar okkar tíma voru haldnir árið 1896. Þar á eftir förum við upp á Akrópólis þar sem við sjáu hið fræga Parþenonhof og leikhús Heródesar Attíkusar. Um kvöldið förum við á gríska skemmtun þar sem við hlustum á gríska tónlist og sjáum gríska dansa.

4. júní - Transfer út á flugvöll fyrir þá sem vilja og brottför.

Ferðin kostar 1360 evrur á mann í tvíbýli
Aukagjald fyrir einbýli er 260 evrur

Innifalið:

# Gisting í 2ja manna herbergjum á góðum og hefðbundnum hótelum í 9 nætur
# Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu
# Ferja til og frá Zakynthos
# 3 sameiginlegir kvöldverðir, ákveðnir á staðnum
# Grísk skemmtun síðasta kvöldið
# Íslensk fararstjórn
# Þjónusta og skattar

Ekki innifalið:

# Aðgangseyrir inn á fornminjar
# Transfer til og frá flugvelli

Hafið samband á th.bv@hotmail.com




Πέμπτη 25 Δεκεμβρίου 2014

Fyrir þá sem hafa áhuga á ferðunum mínum í Grikklandi!

Athugið að flug til Grikklands verðið þið að finna sjálf. Ágætar leitarvélar eru www.momondo.com og www.dohop.com.
Prýðisfagra Pelíon - Létt gönguferð 11 - 20. maí (9 nætur/10 dagar)

Pelíon er lítill og fallegur skagi í Magnesíusýslunni sem skilur á milli Eyjahafsins og Pagasitikoflóans við borgina Volos. Grænir skógar, túrkísblátt haf, tært loft, kyrrð og ró einkenna Pelíonskaginn. Ekki eyðileggja litlu þorpin fyrir, sem dreifð eru hingað og þangað í hæðunum. Húsin eru flest byggð úr steini og næstum því í hverju þorpi eru risastór eikartré sem gnæfa yfir kirkjutorgunum og litlir lækir sem skoppa sindrandi á milli húsanna. Goðsögulega er Pelíon heimkynni Kentáranna, en þeir voru hálfir menn og hálfir hestar, taldir frekar grimmir, en ákaflega vitrir. Mikið eru m göngustíga í fjöllunum á milli þorpa og milli fjalls og fjöru. Það þarf ekki að vera mikill göngugarpur til að ganga í Pelíon, stígarnir eru léttfarnir og gönguleiðirnar eru ekki of langar.



Ferðatilhögun:

11. maí - Koma og nótt í Aþenu

12. maí - Eftir morgunmat verður keyrt frá Aþenu til Volos (Portaria). Keyrslan tekur 5 klt., en við stoppum á leiðinni, m.a. til að skoða minnismerkið um Leónídas Spartverjakonung, þann sem háði hetjulegan bardaga ásamt mönnum sínum gegn Persum á þeim stað sem kallaður er Laugarskörð. Nótt í bænum Portaria.



13. maí - Lagt af stað gangandi frá Portaria til næsta bæjar sem ber nafnið Makrynitsa. Þar er fagurt útsýni yfir bæinn Volos, sveitina og flóann. Eftir að við erum búin að njóta útsýnisins, höldum við áfram göngunni um fjallið í u.þ.b hálfan annan tíma, til kirkjunnar Agios Onoufrios. Þar bíður rútan eftir okkur og við förum og skoðum fornleifarnar í Iolko, sem eru stuttan spöl frá Volos. Þegar við komum inn í bæinn fáum við okkur hádegissnarl og göngum svo meðfram ströndinni í hinn enda bæjarins, þar sem rútan bíður okkar og keyrir okkur til Agios Ioannis, sem er lítill bær á austurströnd Pelíonskagans. Þar dveljum við á litlu hóteli næstu 5 nætur.



14. maÍ - Eftir morgunverð keyrum við með rútunni til bæjarins Tsangarada, þar sem gangan okkar hefst. Í dag göngum við 10 km frá Tsangarada til bæjarins Milies, þar sem við stöldrum við til að fá okkur hádegissnarl, áður en við stígum í gamla lest sem flytur okkur yndisfagra leið til Ano Lexonia. Þar bíður rútan eftir okkur og við höldum heim til Agios Ioannis. Gangan tekur u.þ.b. 3 og hálfan tíma og við erum í nokkuð jafnri hæð, 400 - 450 m.



15. maí - Í dag hefst gangan okkar í bænum Argalasti sem liggur 260m yfir sjávarmáli og við göngum til strandar og á milli stranda til bæjanna Kalamo, Lefokastro og Afisso. Gangan tekur 2 og hálfan tíma, en hægt er að ganga lengr ef vill, til Milína og Platania. komið í eftirmiðdaginn heim á hótel.



16. maí - Í dag er lengsta gönguleiðin þegar við göngum á milli Púrí (450m hæð) til Makrynitsa (850m hæð). Þarna göngum við frá austri til vesturs yfir Pelionfjallið. Rútan sem fylgir okkur er alltaf til staðar þannig að hægt er að ganga styttri leið ef vill. Komið um kvöldmatarleyti til baka til Agios Ioannis.



17. maí - Ganga dagsins hefst á heimaslóðum í Agios Ioannis og gengið verður til strandarinnar Damouchari sem margir kannast við úr kvikmyndinni Mamma mía, en senan þar sem allar konurnar sungu á bryggjunni og duttu svo í sjóinn, var tekin upp þar. Áfram höldum við upp fjallið til Tsangarada þar sem við skoðum yfir 2000 ára gamalt platantré. Að lokum göngum við niður fjallið aftur til strandarinnar Mylopotamos, en þar bíða eftir okkur bátar sem flytja okkur aftur til Agios Ioannis. Á leiðinni skoðum við nokkra hella við ströndina.


18. maÍ - Þá er kominn tími til að kveðja þennan dásamlega stað og halda aftur til Aþenu. Við komum þangað í eftirmiðdaginn og dveljum 2 nætur í borginni.

19. maí - Eftir morgunverð förum við í skoðunarferð um Aþenu og upp á Akrópólis. Eftirmiðdagurinn er frjáls og um kvöldið sjáum við gríska skemmtun með söngvum og grískum dönsum. 




20.maí - Transfer út á flugvöll fyrir þá sem vilja og brottför.

Ferðin kostar 1360 evrur á mann og í henni er innifalið:

# Gisting í 2ja manna herbergjum á góðum og hefðbundnum hótelum í 10 nætur
# Skoðunarferðir og flutningur (transfer) með rútu samkvæmt ferðalýsingu
# Bátsferð þann 17. maí
# Skoðunarferð um fornleifar í Iolkos
# Grískur göngufararstjóri í gönguferðunum
# Íslensk fararstjórn
# Þrír kvöldverðir sem við borðum saman, en verða ákveðnir á staðnum
# Skattar og þjónusta

Aukagjald fyrir einbýli er 260 evrur

Hafið samband á th.bv@hotmail.com































Pelópsskaginn og grískir páskar 6 - 16. apríl (10 nætur/11 dagar )



Pelópsskaginn er syðsti hluti meginlands Grikklands og tengist Mið-Grikklandi á mjóu eyði sem á síðari hluta 19. aldar var grafið í sundur fyrir skipaskurð sem kallast Kórinþuskurðurinn. Pelópsskaginn er sögusvið guða og frækinna goðsagna og þar má finna ótal staði þar sem guðir og menn gerðu garðinn frægan. Í þessari ferð heimsækjum við sögustaðina m.a. Spörtu, Pylos og Ólympíu, en við sjáum einnig bæina Mystras og Monemvasía, sem gerðu Pelópsskagann að mikilli menningar og verslunarmiðstöð á miðöldum. Náttúran klæðist sínum fegursta skrúða á vorin og við fáum að njóta litadýrðar hennar í Kalamata, Kardamyli, Diroshellunum, Gythion og Kalavryta. Í ár eru páskar í Grikklandi viku síðar en okkar páskar og því fáum við að kynnast grísku páskunum og njótum matar og drykkjar á páskasunnudegi í Kalamata.



Ferðaáætlunin er sem hér segir:

6. apríl - Koma og nótt í Aþenu

7. apríl - Eftir morgunverð er farið í skoðunarferð um Aþenu og Akrópólis. Upp úr hádegi er keyrt áfram til Pelópsskagans með viðkomu við Kórinþuskurðinn. Áfram er keyrt meðfram Kórinþuflóanum til bæjarins Diakofto, þar sem við stígum í tannalest sem flytur okkur upp Vouraikos gljúfrið til bæjarins Kalavryta þar sem við dveljum eina nótt.


8. apríl - Í dag keyrum við til Ólympíu um undurfallegt landsvæði í gegnum Klítoría, Agia Triada og Amaliada. Nótt í Ólympíu.




9. apríl - Eftir að hafa skoðað fornminjarnar í Ólympíu og tekið smá 
sprett á hinum upphaflega Ólympíuleikvangi, keyrum við til Pylos. Við keyrum mestalla leiðina meðfram sjónum og rétt áður en við komum á áfangastað keyrum við fram á eina af sérkennilegustu ströndum Grikklands, sem heitir Nautsmagi (Voidokilia)Nótt í Pylos.



10. apríl - Í Pylos var höll Nestors, einnar af söguhetjum Hómers í Ilionskviðu og eftir að við heimsækjum hana, höldum við til höfuðstaðar Messiníusýslunnar sem heitir Kalamata. Við keyrum meðfram ströndinni og stöldrum við á fallegum stöðum eins og Methoni, Finikounda og í nágrenni Kalamata heimsækjum við Polylimnio, þar sem hægt er að baða sig í tærri lind við fallegan foss, ef veður leyfir. 3 nætur í Kalamata. 


11. apríl - Eftir morgunverð keyrum við í suðurátt í gegnum þorpin Kardamili og Stoupa til að heimsækja Diros hellana. Þetta eru fallegir kalksteinshellar sem mynduðust þegar stór á gróf sér farveg í gegnum klettinn. Farið er á litlum bátum sem fylgja farvegi árinnar til að skoða hellana. Á heimleið verður komið við í Gythion, fiskiþorpi við Messiníuflóann. Um kvöldið á miðnætti fagnar allt Grikkland upprisu frelsarans og við tökum þátt í þeim hátíðarhöldum. Nótt í Kalamata




12. apríl - Við tökum það rólega að morgni páska, en borðum svo páskahádegisverð með öllu tilheyrandi, páskalambi, rauðum eggjum, eggjabrauði (tsoureki) og lifandi tónlist. Eftirmiðdagur frjáls og nótt í Kalamata.



13. apríl - Í dag keyrum við til Monemvasía, sem er virkisþorp frá miðöldum á austurströnd Pelópsskagans. Nútímabærinn liggur við ströndina , en miðaldaþorpið hangir í hlíðinni á lítilli eyju sem tengist við meginlandið á litlu eyði. Nótt í Monemvasía.




14. apríl - Eftir að hafa skoðað virkið og hinar mjóu steinlögðu götur sem riddarar riðu um á miðöldum, keyrum við til hinnar heimsfrægu Spörtu. Þar sem Spartverjar voru fyrst og fremst hermenn, en ekki hugsuðir eða byggingarmeistarar, létu þeir ekki mikið eftir sig. Í dag eru hins vegar aðrar minjar sem grípa athyglina og það eru leifar miðaldabæjarins Mystras, en hann var byggður af krossförum á 13. öldinni og varð að mikilli menningarmiðstöð.

15. apríl - Eftir morgunverð skoðum við Mystras og höldum svo sem leið liggur til Aþenu. Nótt í Aþenu




16. apríl - Transfer út á flugvöll fyrir þá sem vilja og brottför

Ferðin kostar 1340 evrur á mann í tvíbýli.

Aukagjald fyrir einbýli er 260 evrur

Lágmarksþátttaka: 20 manns
Hámarksþáttaka: 30 manns

# Gisting í 2ja manna herbergi í 10 nætur á góðum, hefðbundnum hótelum með morgunverði
# Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu
# Lestarferð Diakofto/Kalavryta
# 3 máltíðir - miðnæturmáltíð aðfararnótt páska, hádegisverður á páskadag, kveðjukvöldverður síðasta kvöldið i Aþenu.
# Íslensk fararstjórn
# Skattar og þjónusta

Ekki innifalið:

# Aðgangseyrir inn á fornminjar.
# Transfer til og frá flugvelli

Hafið samband á th.bv@hotmail.com











Πέμπτη 18 Δεκεμβρίου 2014

Dreymir þig í bláu og hvítu?


Við hönnum ferðir í Grikklandi með eða án fararstjóra fyrir einstaklinga, litla og stóra hópa, klúbba og kóra.

Rithöfundurinn Nikos Kazantsakis, sem skrifaði hina frægu bók um Grikkjann Zorba, sagði einu sinni. ,,Þú ert með litina og strigann, málaðu paradís og gakktu inn"

Gangið inn í paradísina ykkar í Grikklandi!

Ferðir til Grikklands næsta vor


Er ekki kominn tími til að kynnast Grikklandi?


Tvær ferðir verða í boði Grikklandsgaldurs næsta vor. Sú fyrri í apríl verður um Pelópsskagann, syðsta hluta meginlandsins, þar sem við skoðum lífið, náttúruna og fólkið. Við tökum þátt í grískum páskum, smökkum grísk vín og grískan mat. Svo skoðum við auðvitað sögustaðina Spörtu, Ólympíu, Mýkenu og Epídárus.



Seinni ferðin sem verður um miðjan maí er létt gönguferð á milli stranda og fjallaþorpa á Pelíonskaganum sem er staðsettur á austurhluta meginlandsins. Þar munum við njóta grænna skóga, túrkísbláa sjávarins og aldagamalla grískra sveitaþorpa.


Fullgerðar ferðaáætlanir og verð munu liggja fyrir eftir helgina. Fylgist með!